Leiðbeiningar til nemenda í prófunarhópi

Hér eru svör við algengustu fyrstu spurningum sem kunna að vakna hjá nemendum við upphaf misseris.

English version

Á vormisseri 2020 eru rúmlega 60 námskeið kennd í Canvas til þess að gera prófanir á kerfinu og virkni þess. Þeir nemendur sem taka þátt í prófunum fengu póst og tilkynningu núna í desember þess efnis. Þú sérð hvort námskeiðið þitt er í Canvas þegar þú skráir þig inn í Uglu og smellir á námskeiðsheiti. Ef námskeiðið er í Canvas opnast kennsluvefur námskeiðsins í umhverfi sem þú hefur mögulega ekki séð áður en ætti að skýra sig sjálft. 

Nemendur sem eru skráðir í námskeið í Canvas skrá sig einfaldlega inn í Uglu og smella á heiti námskeiðs þar. Þá opnast kennsluvefur námskeiðsins án þess að nemandi þurfi að skrá sig sérstaklega inn í Canvas (e. Single Sign On).

Ef einhverjar stillingar í vafra eða annað leyfa ekki slíka innskráningu notar þú sama notandanafn (@hi netfangið) og lykilorð og þú notar til að skrá þig inn á Uglu.

Skjáskot af dæmigerðu námsumhverfi í Canvas.

Umhverfið í Canvas er alltaf mjög svipað milli námskeiða og þykir notendavænt. Aðalvalmynd kerfisins er lengst til vinstri, því næst valmynd til að vafra um námskeið og svo kemur efni námskeiðsins. Athugaðu að lengst til hægri verður til verkefnalisti þar sem þú færð yfirlit yfir öll verkefni sem eru komin með skiladag í kerfinu. 

Hér hefur kennari valið að setja námsefnið fram eftir kennsluvikum en hann gæti líka valið að raða því eftir efnisþáttum. Sumir kennarar setja upp síður til þess að leiða þig áfram í námsefninu. 

Já, það er app! Þú getur haft gott aðgengi að námskeiðinu þínu í snjalltækinu þínu. Þú finnur”Canvas Student” í AppStore eða Google Play Store, sækir það og skráir þig svo inn með @hi netfanginu þínu og sama lykilorði og í Uglu. 

Þau námskeið sem eru kennd í Canvas opnast þá í appinu, en þú þarft áfram að nota Uglu til að komast á kennsluvefi annarra námskeiða. 

Skjáskot yfir stillingar í valmynd

Þú getur ráðið því hvar og hversu oft þú færð tilkynningar frá Canvas kerfinu. Til þess að stilla það smellir þú á “Reikningur” í valmyndinni vinstra megin og þar smellir þú á “Tilkynningar”. Þá opnast gluggi þar sem þú hefur ýmsa valkosti um það hvar og hversu oft tilkynningar frá námskeiðum birtast. 

Þú getur valið að fá tilkynningar samstundis, einu sinni á, einu sinni í viku eða þá að fá ekki tilkynningar um ákveðna virkni í námskeiði. Athugið að allar tilkynningar innan kerfisins fara á @hi.is netfangið þitt.

Sumier nemendur hafa lent í vandræðum með að sjá upptökur frá kennara í Canvas námskeiðum. Þetta er útskýrt í meðfylgjandi myndbandi:

Stundum setja kennarar fyrir verkefni sem á að skila á kennsluvef. Þú fylgir þá leiðbeiningum kennara til að komast að skilahólfi verkefnis. Þar smellir þú á að “Skila verkefni”. 

Mynd sem sýnir skilahólf nemanda í Canvas.

Því næst finnur þú verkefnið á tölvunni þinni og hleður því síðan upp í skilahólfið:

Síðan samþykkir þú notendaskilmála og smellir á “Skila verkefni.”

Kennarar geta sett nemendum fyrir að taka þátt í umræðum á kennsluvef. Þá fylgir þú einfaldlega leiðbeiningum kennarans til að komast á umræðuþráðinn. 

Skjáskot af umræðuþræði í Canvas

Það eina sem þú þarft að gera er að smella á “Svara” og þá opnast ritill þar sem þú skráir svarið þitt. 

Skjáskot af ritli Canvas

Ritillinn hefur svipaða virkni og hefðbundin ritvinnsla þar sem þú getur feitletrað, skáletrað, undirstrikað, sett inn fyrirsagnir og millifyrirsagnir, myndir, myndbönd og tengla.

Ef Canvas virkar ekki eða þú lendir í vandræðum með eitthvað sem þú ert að reyna að gera á kennsluvef hefur þú nokkrar leiðir til þess að finna svör: 

  • Canvas Student Guide: Leiðbeiningar á ensku frá framleiðanda Canvas. 
  • Canvas Community: Samfélag nemenda sem nota Canvas þar sem hægt er að leita að svörum eða leggja fram spurningar.
  • Hjálparhnappurinn í Canvas: Neðst vinstra megin er hnappur sem heitir Hjálp. Þaðan getur þú sent beiðni um aðstoð beint frá þeim stað þar sem þú lendir í vandræðum. 
  • Netfang þjónustborðsins, help@hi.is: Ef fyrirspurnin er almenns eðlis eða þá ef að hjálparhnappurinn virkar ekki er alltaf hægt að hafa samband í gegnum þetta netfang. 
  • Þjónustusími UTS: Ef erindið er mjög brýnt og þú þarft aðstoð fljótt er hægt að hringja í síma 525 4222 á virkum dögum kl. 8-16. 

Við leggjum okkur fram um að veita fljóta og góða þjónustu þannig að þú skalt ekki hika við að hafa samband. 

Ertu með spurningu varðandi Canvas? Sendu okkur fyrirspurn á help@hi.is!