Eitt kerfi fyrir alla

Háskóli Íslands leggur áherslu á jákvæða námsupplifun nemenda og að námsleiðir skólans standist alþjóðlegar gæðakröfur. Kannanir hafa sýnt að nemendur við skólann gera kröfu um að framsetning kennslu á vef sé samræmd og í einu notendavænu kerfi. Sömu óskir hafa komið fram meðal kennara og stjórnenda.

Notendamiðað val

Á grunni þessara óska hóf Háskóli Íslands leit að kerfi með einföldu notendaviðmóti sem gæti eflt námsupplifun nemenda með verkfærum sem kennarar vilja nota. Kerfi sem er nægjanlega sveigjanlegt til að kennarar geti aðlagað það að námskeiðum sínum og býður að auki upp á hnökralausar tengingar við þau verkfæri sem eru notuð við kennslu í Háskóla Íslands. Þau kerfi sem svöruðu þessum þörfum fóru í notendaprófanir og þar völdu fulltrúar notenda Canvas.

Innleiðing á einu ári

Samstarf Háskóla Íslands og Canvas er hafið og innleiðingarteymi verið sett á fót til þess að innleiða kerfið. Við fáum mikinn stuðning frá Canvas við innleiðinguna, bæði tæknilega og faglega. Í janúar mun hópur kennara og nemenda prófa kerfið og í september 2020 verður kerfið innleitt að fullu. Innleiðingarteymið okkar miðlar upplýsingum um framgang verkefnisins á sérstökum verkefnavef, canvas.hi.is. Eftir því sem notendum í kerfinu fjölgar og umfang þess vex er lögð áhersla á að hlusta á raddir notenda og kalla eftir endurgjöf þeirra með könnunum og virkum stuðningi.

  • Share: