„Ég er viss um að allir kennarar geta fundið leið til að láta Canvas hjálpa til við kennslu og skipulag.“

Jónína Guðjónsdóttir, lektor í geislafræði á Heilbrigðisvísindasviði

Jónína Guðjónsdóttir

Ég hafði áður „lent“ inn í Canvas í námskeiði sem ég var stundakennari í. Þá fékk ég aðgang að námskeiði sem aðrir kennarar höfðu sett upp og ENGAR leiðbeiningar. Ég hafði aldrei áður séð Canvas en gat samt sett fyrirlestrana mína inn í kerfið og nemendurnir fundu þá. Eftir þessa reynslu var ég sannfærð um að Canvas hlyti að vera ágætt námsumsjónarkerfi.

Þegar ég fór á fyrsta kynningarnámskeiðið um Canvas í HÍ var ég því frekar jákvæð, en fyrst og fremst ákveðin í að læra að nýta nýtt námsumsjónarkerfi sem best til að miðla efni til nemenda.
Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir alla að fara á einhverskonar inngangsnámskeið/fyrirlestur í upphafi þar sem grunnatriðin eru kynnt, þ.e.a.s. hvernig kerfið „hugsar“ .

Mér fannst strax augljóst að það eru fjölbreyttir möguleikar í Canvas til að gera skemmtilega kennsluvefi sem eru sniðnir að þörfum hvers námskeiðs. 

Ég sá líka að það er hægt að setja námskeið upp á mjög einfaldan hátt en það er einmitt mikilvægt að kennsluvefir séu ekki flóknari en þeir þurfa að vera.

Að mínu mati er þetta einn stærsti kostur Canvas, þ.e.a.s. kennari getur valið hvaða möguleika hann notar en samt verður uppbygging kennsluvefsins stöðluð gagnvart nemendum.

Með síðunni Kennsluáætlun sem er í öllum námskeiðum er kennurum gert auðvelt að birta mikilvægar upplýsingar á viðeigandi stað. Ýmislegt kemur sjálfkrafa inn á Kennsluáætlun, t.d. vægi verkefna og skiladagar, þegar búið er að stofna Verkefnahópa og Verkefni. Einnig er hægt að bæta Síðum, t.d. síðum þar sem er listi yfir lesefni, á verkefnalistann með einföldum hætti.

Eftir fyrstu reynsluna af því að nota Canvas held ég að gagnlegasta ráðið sem hægt er að gefa kennurum til að byrja með sé að temja sér tvær einfaldar reglur til að henda reiður á efni námskeiðs:

1. Búa til möppukerfi í Skrár og setja allar skrár fyrst þar inn og sækja síðan þangað.

  • Gefa möppum lýsandi nöfn t.d. ár og gerð skjals [Fyrirlestrar2020]
  • Setja skrá inn á Síðu með því að velja úr valmynd hægra megin
  • Setja skrá inn í Einingu í Námsefni með því að velja úr lista [+ Bæta / Skrá ]

2. Búa til Verkefnahópa, stofna Verkefni og stilla vægi verkefna. Það borgar sig að gera jafnvel þó verkefnum sé ekki skilað rafrænt því að:

  • listi yfir vægi verkefna birtist á Kennsluáætlun námskeiðs sem auðveldar nemendum yfirsýn.
  • um leið lærir maður um vægi verkefnahópa og skipuleggur þá verkefnin eftir því.
  • nemendur geta skoðað öll verkefni á einum stað í Verkefni.

Mér fannst líka mjög gagnlegt þegar ég lærði að nota valmyndina sem í ritlinum þegar verið er að breyta Síðu því þar er hægt er að hlekkja í Skrár, Einingar eða Myndir sem auðveldar uppsetningu á síðunni.

Að lokum finnst mér ástæða til að hvetja kennara til að nota Kennsluáætlun (síðuna) og láta kerfið vinna með sér, t.d. með því að skilgreina vægi og skiladaga verkefna því þá birtist það sjálfkrafa á kennsuáætlun.

Ég er viss um að allir kennarar geta fundið leið til að láta Canvas hjálpa til við kennslu og skipulag – það er jú það sem námsumsjónarkerfið á að gera.