Innleiðingaráætlun

Á haustmisseri 2020 mun Canvas taka við sem námsumsjónarkerfi Háskóla Íslands. Kennsluvefir Uglu og Moodle verða lagðir af.

Til þess að ná því markmiði er unnið eftir innleiðingaráætlun sem er unnin í samvinnu hagsmunaaðila og byggir meðal annars á reynslu fjölda annarra háskóla sem hafa innleitt kerfið. Innleiðingin er eins árs verkefni og lýkur í september 2020 þegar fullur rekstur kerfisins tekur við. Stýrihópur verkefnisins fundar reglulega og heldur utan um alla þræði innleiðingarinnar.

 • Samningsgerð og kynning

  September 2019
  Eftir undirritun samnings við Instructure um notkun á Canvas hefst kynning á verkefninu innan HÍ.
  - Kynningarvefur opnaður í byrjun september
  - Kynningarfundir innan háskólans

 • Námskeið og fræðsla fyrir lykilstarfsmenn

  September 2019
  Það starfsfólk á Kennslusviði sem leiðir innleiðingu Canvas og stýrihópur fær kennslu í uppsetningu námskeiða. Tæknihópur Upplýsingatæknisviðs vinnur með tæknifólki Instructure að tengingum milli Canvas og annarra kerfa Háskólans.

 • Prófunarhópur valinn

  September 2019
  Hópur kennara við HÍ mun nota Canvas í kennslu á vormisseri 2020 og verður valinn í september. Markmið með þessum prófunarhópi (e. pilot) er að kynnast rekstri kerfisins í umhverfi HÍ. Með því verður til dýrmæt reynsla og þekking sem auðveldar það stóra skref að allur skólinn taki upp kerfið.

 • Námskeið og fræðsla fyrir prófunarhóp

  Október 2019
  Í lok október verða fyrstu drög að fræðslu í notkun Canvas fyrir starfsmenn tilbúin. Prófunarhópurinn fer í gegnum fræðsluna og byrjar að undirbúa flutning á námskeiðum sínum úr Moodle og af kennsluvef Uglu yfir í Canvas.

 • Canvas opnað fyrir prófunarhóp

  Nóvember 2019
  Um miðjan nóvember hefst prófunarhópur handa við að setja upp námskeið vormisseris í kerfinu. Lögð verður áhersla á að ná fram notendavænni upplifun, bæði í yfirfærslu gagna og uppsetningu námskeiða. Starfsfólk verkefnisins verður kennurum til aðstoðar í uppsetningu kennsluvefja.

 • Fræðsla fyrir nemendur

  Nóvember 2019
  Á meðan kennarar í prófunarhópi undirbúa námskeiðin sín verður nemendum boðið upp á fræðslu í notkun Canvas. Þar verður nemendum kennt á leiðarkerfi námskeiðs og við hverju þeir mega búast þegar námskeiðið hefst.

 • Kennsla prófunarhóps hefst

  Janúar 2020
  Stærsti áfangi innleiðingaráætlunarinnar til þessa. Lögð verður áhersla á góða og fljóta notendaþjónustu fyrstu vikur vormisseris til þess að tryggja að verkefnið fari vel af stað.

 • Námskeið fyrir alla kennara HÍ

  Febrúar 2020
  Opnað fyrir fræðslu í uppsetningu námskeiða í Canvas. Boðið verður upp á þrjú námskeið til að byrja með, frá grunnvirkni í kerfinu yfir í ítarlegri námskeið um möguleika Canvas til þess að virkja nemendur og auðvelda starf kennarans við að halda utan um námskeiðin sín.

 • Staðbundin námskeið hefjast

  Mars 2020
  Kennslusvið Háskóla Íslands mun hefja námskeiðaröð þar sem kennarar fá þjálfun í að setja upp kennsluvefi í Canvas. Kennarar munu hafa val um að mæta á þessi námskeið eða taka fræðsluna í gegnum vefnámskeiðin.

 • Canvas opnað fyrir kennara

  Mars 2020
  Um miðjan mars munu allir kennarar Háskóla Íslands fá aðgang að kennsluvefjum þeirra námskeiða sem þeir munu kenna á haustmisseri 2020. Þeir geta þá byrjað að skipuleggja kennsluvefina, setja inn lesefni og kennsluáætlanir.

 • Canvas opnað fyrir nemendur

  Haustmisseri 2020
  Formlegri innleiðingu lýkur og kerfið fer í fullan rekstur þegar öll námskeið kennd við Háskóla Íslands eru komin inn í Canvas. Kennsluvefir Uglu og Moodle verða aflögð og stýrihópur innleiðingar lýkur störfum.

  Virk fræðsla ásamt þjónustuborði verða áfram í boði fyrir notendur og leiðbeiningar verða aðgengilegar á vef.