Undanfarnar vikur hafa kennarar í prófunarnámskeiðum (e. pilot) unnið hörðum höndum að undirbúningi fyrir vormisserið. Þeir hafa setið námskeið í grunnvirkni í Canvas ásamt því sem haldnar hafa verið vinnustofur þar kennarar deila reynslu sinni og þekkingu. Það hefur verið virkilega góður andi í þessari undirbúningsvinnu og kennurum gengið nokkuð vel að fóta sig í nýju umhverfi.

Mynd af vinnustofu á Menntavísindasviði.
Frá vinnustofu með prófunarhópi Menntavísindasviðs

Í gær, 17. desember, fengu nemendur sem eru skráðir í prófunarnámskeiðin tilkynningu um þátttöku í þessum prófunum og í dag, 18. desember, fá þeir í fyrsta sinn aðgang að kerfinu. Samtals verða rétt um 60 námskeið kennd í Canvas á vormisseri, með aðkomu yfir 100 kennara og stundakennara og í heildina verða nemendur rúmlega 2.000. Það er því óhætt að segja að þetta séu viðamiklar prófanir og ákaflega dýrmæt reynsla sem verður til á næstu mánuðum.

Kynningarstarf í deildum

Fulltrúar úr innleiðingarteyminu fara nú á milli deilda og kynna innleiðingu Canvas fyrir kennurum. Núna í lok haustmisseris höfum við heimsótt 6 deildir. Í janúar og febrúar förum við í 20 deildir til viðbótar.

Á þessum fundum höfum við fengið margar frábærar ábendingar frá kennurum, svarað alls kyns spurningum sem brenna á notendum og sýnt kennurum hvernig kerfið lítur út og hvernig samspilið við Uglu er hugsað.

Algengasta spurningin sem við fáum er einmitt sú hvort leggja eigi niður Uglu. Canvas kemur vissulega í stað kennsluvefs Uglu, en önnur hlutverk hennar breytast ekki í tenglsum við þessa innleiðingu. Hún mun áfram halda utan um námsferil nemenda, störf kennara o.s.frv. en Canvas heldur utan um nám nemenda (sjá: Hvað er námsumsjónarkerfi?)

Kynning og leiðbeiningar fyrir nemendur

Nú þegar kennarar í prófunarhópi eru langt komnir með að stilla upp námskeiðunum er næsta skref að senda nemendum í þeim námskeiðum leiðbeiningar um notkun Canvas. Það munum við gera fyrstu dagana í janúar, þegar kennsla hefst í kerfinu.

Leið nemenda inn í kerfið verður einföld. Eins og áður skrá þeir sig inn í Uglu, smella þar á heiti námskeiðsins og færast þá yfir á kennsluvef námskeiðsins.

Dæmi um viðmót nemanda í Canvas. Athugið að uppsetning kennara er ekki alltaf nákvæmlega sú sama og því gæti viðmótið verið aðeins breytilegt á milli námskeiða.

Þeir nemendur sem taka þátt í prófunum á kerfinu munu fá tækifæri til þess að segja skoðun sína og lýsa upplifun sinni í gegnum kannanir sem sendar verða út á meðan á prófunum stendur, enda er námsupplifun nemenda ein af ástæðum þess að farið var af stað í þessa breytingu. Við bindum miklar vonir við að nemendur verði virkir í að segja okkur frá upplifun sinni svo að hægt sé að finna leiðir til að mæta væntingum þeirra.

Næstu skref

Það er alltaf ánægjulegt að vinna að verkefni sem heldur áætlun. Næstu vikur eru mikilvægar, því nú kemst raunverulegri mynd á það hvaða möguleika kennarar vilja nýta sér í þessu sveigjanlega kerfi, hver upplifun nemenda verður og hvernig tæknileg uppsetning virkar.

Næstu mikilvægu þættir í verkefninu eru:

  • Kennsla í kerfinu hefst í rúmlega 60 námskeiðum á fyrstu tveimur vikum janúar.
  • Kynningarstarf í deildum heldur áfram fram til loka febrúar.
  • Kynningarstarf fyrir nemendur hefst í febrúar.
  • Þjálfun allra kennara hefst í mars.
  • Allir kennarar fá aðgang að kerfinu í mars.

  • Share: